Hérna eru svör við algengustu spuringunum sem við fáum.

Barnið mitt er fætt árið 2006. Í hvaða hóp fer það?

Börn fædd 2006 (10 ára) geta verið í hvorum hópnum sem er (8-10 ára eða 10-12 ára). Foreldrar geta því metið það hvort að það fer barninu betur að vera elst í hópnum sínum eða yngst. Sumum börnum fer vel að vera með yngri hópnum og sumum fer vel að vera með eldri hópnum. Oft fer það líka eftir því hvort að einhverjir vinir eða ættingjar eru að fara með í sumarbúðirnar.

Af hverju má ekki koma með raftæki eða síma?

Í sumarbúðunum er mjög mikil dagskrá í boði. Það er reynsla okkar að það sé afar lítil þörf fyrir þessi tæki og að þau valdi oft meiri óþægindum, kvíða og stressi en þau leysa. Svo eiga þau það til að týnast og það viljum við síður.

En ég get ekki hringt ef að barnið er ekki með síma!

Jú, það er vel hægt. Það er símatími á hverjum degi (sjá heimasíðu) og þar eru foreldrar hvattir til að hafa samband. Við hvetjum þó foreldra til að vera ekki mikið að hringja í eða tala við börnin sín, því að það verður frekar til að búa til heimþrá en að leysa hana. Í þétt skipaðri dagskrá hafa börnin yfirleitt lítið svigrúm til að hafa heimþrá, þó svo að við höfum fullan skilning á að foreldrar hafi „heimþrá“ í börnin sín. Ef upp koma einhver alvarleg vandamál er alltaf haft samband við foreldra.

Fær barnið mitt nóg að borða?

Stutta svarið er: Já! Við miðum matseðilinn við þarfir barna og langanir, til að tryggja að þau borði vel. Það er boðið upp á barnvænan heimilismat alla daga. Í morgunmat er boðið upp á morgunkorn eða brauð alla daga ásamt heitum hafragraut. Svo er hádegismatur, kaffi (alltaf með nýbökuðu), kvöldmatur og kvöldhressing (oftast ávextir).

Barnið mitt er með mataróþol, getur það samt komið?

Já, það er ekkert mál. Við erum alvön því að gefa börnum með óþol eða ofnæmi að borða. Það er mikilvægt að við fáum góðar upplýsingar með góðum fyrirvara um barnið og hvað það getur og getur ekki borðað. Við vinnum svo í því með foreldrum að finna lausn sem hentar. Minniháttar óþol/ofnæmi leysum við auðveldlega en hingað hafa einnig komið þátttakendur með flókna efnaskiptasjúkdóma og bráðaofnæmi. Við getum leyst þetta allt.

Barnið mitt tekur lyf, fær það hjálp við það?

Já, við tökum öll lyf sem koma með þátttakendum við komu (eða við rútuna). Þeim þurfa að fylgja greinargóðar leiðbeiningar og þau þurfa að vera vel merkt viðkomandi barni. Einn af okkar foringjum hefur svo það hlutverkt að útdeila þessum lyfjum á réttum tíma í réttu magni. Við hvetjum foreldra til að láta vita af öllu slíku. Það sem er erfiðast fyrir okkur er að fá ekki góðar leiðbeiningar eða að fá ekki neinar upplýsingar.

Hvað þurfa þátttakendur að koma með?

Það er mikilvægast að koma búin til útiveru. Dagskráin er að mestu leiti úti og því gott að hafa nóg af útiförum. Svefnpoki eða rúmföt eru einnig nauðsynleg. Annars má finna útbúnaðarlista hér: Útbúnaðarlisti

Á að merkja öll fötin?

Já takk. Það hjálpar okkur alltaf mjög mikið ef að fötin eru merkt með nafni og/eða símanúmeri. Þegar við erum með 40 krakka þá hjálpar allt.

Hvert fara óskilamunir?

Óskilamunir eru teknir saman hér fyrir austan og skráðir. Ef að þig vantar eitthvað í töskuna þá er best að senda okkur póst með lýsingu á sumarbudir@skatar.is Við getum þá komið óskilamunum í Skátamiðstöðina (Hraunbæ 123) eða það má vitja þeirra hér á Úlfljótsvatni.

Mega þátttakendur koma með nammi?

Það er ekki æskilegt að koma með nammi eða annan mat. Margar tegundir af nammi innihalda ofnæmisvalda og því er betra að geyma það heima. Í sumarbúðunum er alltaf nóg að borða og við pössum upp á að gera okkur glaðan dag þegar það á við.

Er hægt að dreifa greiðslum á?

Já það er hægt, en það þarf að hafa samband við okkur áður en bókað er. Það má gera með því að hringja í síma 482-2674 eða með því að senda póst á ulfljotvatn@skatar.is með nafni og símanúmeri sem hægt er að hringja í.

Er hægt að taka frá pláss?

Nei við tökum ekki frá pláss. Það er hægt að bóka pláss og því má segja upp með allt að 3 vikna fyrirvara. Sé það gert er plássið endurgreitt nema skráningargjaldið sem er óafturkræft, það er 4.900.- krónur. Sé afbókað innan við viku fyrir upphaf námskeið fæst það ekki endurgreitt.

Er hægt að skrá á biðlista?

Já, það er hægt. Á skárningarsíðunni okkar birtist biðlistaskráningin um leið og fyrsta námskeiðið fyllist. Eftir því sem að námskeiðin fyllast bætast þau svo inn sem valmöguleiki. Farið er í gegnum biðlistan eftir því sem við á og það er alltaf gert í þeirri röð sem að skráningar koma inn á listan. SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ Á BIÐLISTA 

Þarf barnið mitt að taka rútuna?

Nei, það er algjörlega val foreldra og þátttakenda. Hægt er að bóka rútu í gegnum bókunarformið um leið og skráð er. Kjósi þið að koma sjálf er það sjálfsagt. Þá er bara að hoppa upp í bíl og keyra austur á Úlfljótsvatn. Mæting er á Úlfljótsvatn klukkan 10:00 fyrsta daginn. Það er jafnframt hægt að bóka bara aðra leiðina ef að þið eruð t.d. að fara áfram í sumarfrí á föstudeginum og viljið sækja barnið á Úlfljótsvatn.