Sumarbúðir hafa verið starfræktar að Úlfljótsvatni síðan 1941. Framan af var aðeins um að ræða sumarbúðir fyrir skáta, og sváfu þeir fyrstu árin í tjöldum.

Síðasta aldarfjórðunginn hafa sumarbúðirnar hins vegar verið opnar öllum krökkum á aldrinum 8-12 ára.

Þá er einnig boðið upp á spennandi ævintýrabúðir fyrir unglinga á aldrinum 13-15 ára, sem hafa slegið í gegn á undanförnum árum.

Sumarið 2017 verður hins vegar prófuð breyting á fyrirkomulagi sumarbúðanna, þar sem aðeins verður boðið upp á sumarbúðir fyrir fjölskyldur. Það er von okkar að þessi tilraun mælist vel fyrir, enda dýrmætt fyrir fjölskyldur að skapa góðar minningar saman.

Sumarbúðirnar eru reknar af Útilífsmiðstöðinni á Úflfljótsvatni sem er í eigu Bandalags íslenskra skáta og Skátasambands Reykjavíkur.

Starfsfólk og eigendur eru stoltir af því að bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá sem nær vel til krakka. Í sumarbúðunum eru allir eru þátttakendur og takast á við spennandi viðfangsefni í náttúrulegu og öruggu umhverfi. Með því að bjóða upp á mikla útivist og ævintýri hafa sumarbúðirnar á Úlfljótsvatni skapað sér sérstöðu og gott orðspor. Þátttakendur eru hæstánægðir með dvöl sína og foreldrar ekki síður.

 

Útbúnaður

Það er auðvelt að útbúa þátttakendur fyrir sumarbúðirnar. Það sem helst þarf að hafa í huga er að mikið (nánast allt) af dagskránni okkar er úti. Það þarf því að huga að útifatnaði sérstaklega.

Þátttakendur þurfa að koma með svefnpoka eða önnur rúmföt en lök eru á öllum dýnum hjá okkur.

Tillaga að útbúnaðarlista:

 • Svefnpoki (koddi og jafnvel kúrudýr)
 • Náttföt (inniskór)
 • Handklæði
 • Hreinlætisáhöld; tannbursti, tannkrem o.þ.h.
 • Vatns- og vindheldur fatnaður
 • Hlý peysa (ull eða flís)
 • Góðar útibuxur, helst ekki gallabuxur
 • Ullarnærföt
 • Vatnsvarðir skór eða gúmmístígvél
 • Strigaskór og/eða sandalar
 • Tvennir ullarsokkar
 • Húfa, vettlingar og buff eða trefill
 • Föt til skiptanna (nærföt, sokkar, peysur og buxur)
 • Föt til að fara í vatnasafarí (sem mega skemmast)
 • Vatnsbrúsi
 • Fleira smálegt t.d. vasaljós eða bók

Munið að merkja allan fatnað vel.

Við mælum með því að sælgæti, gosdrykki, tyggjó, GSM símar, iPod eða önnur raftæki verði skilin eftir heima. Allir fá nóg að borða í sumarbúðunum og símar og önnur raftæki takmarka upplifun af ævintýri sumarbúðanna.